Sveitarfélagið Múlaþing​

Lyngási 12, 700 Egilsstaðir | Kt: 660220-1350 |
Sími: 4 700 700 | mulathing@mulathing.is

Umhverfi

Lifandi áfangastaður

Austurland er lifandi áfangastaður og allir sem eiga erindi á svæðið ættu að finna eitthvað við sitt hæfi hvort sem það er útivist, hátíðir eða ferskur matur úr nágrenninu allt árið um kring. Egilsstaðir eru miðsvæðis og fullkomin miðstöð fyrir þá sem vilja ferðast um Austurland.

Á Austurlandi er Vatnajökulsþjóðgarður, fagrir firðir, hið fallega umhverfi Lagarfljóts og hinn heimsfrægi Lagar-fljótsormur. Austurland er einnig ríkt af menningu, metnaðarfullum söfnum, fjölmörgum hátíðum og spennandi matseld. Austurland er frábær staður til útivistar, svo sem hjólreiða, hestaferða, kajakróðra, skíðaiðkunar, gönguferða, sundferða og margs fleira.

Höfuðstaður Austurlands

Egilsstaðir er höfuðstaður Austurlands og einn mikilvægasti viðkomustaður landsins. Egilsstaðir eru hluti af Múlaþingi sem er stærsta sveitarfélag landsins. Íbúar Austurlands eru 10.700 og því er svæðið að mestu dreifbýlt. Flestir íbúarnir búa þó í ákveðnum kjarna þéttbýlisstaða miðsvæðis á Austurlandi.

Egilsstaðir eru þjónustumiðstöð Austurlands. Lega bæjarins er miðsvæðis á Austurlandi við annasömustu vegamót fjórðungsins. Þetta þýðir að flestir sem ferðast til og frá Austurlandi fara í gegnum Egilsstaði. Öll svæði sem eru ætluð fyrir þjónustu eru í nálægð við þjóðvegina með greiða aðkomu fyrir ökutæki af öllum stærðum.

Bærinn er vel tengdur fyrir samgöngur, á landi lofti og legi; millilandaflugvöllur og stutt í hafnir í Seyðisfirði og Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði. Þrjár áætlunarferðir frá flugvellinum daglega milli Egilsstaða og Reykjavíkur allan ársins hring, en flugtíminn er um 45 mínútur.

Veðurfar á Egilsstöðum

Veðurfar þykir almennt gott á Egilsstöðum. Vegna staðsetningar sinnar inn í landi getur vetur orðið harður og snjóþungur en sumur hlý, þó þetta sé engin algild regla. Í Egilsstaðabók segir að það sé alhæfing sem ekki sé rétt, að alltaf sé gott veður á Héraði en þó segir að hvergi á landinu sé veðrið nær því að vera eins og flestir Íslendingar vildu hafa það. Ríkjandi vindáttir eru norðan- og norðaustanáttir og gagnstæðar áttir. Algengt er að á hlýjum sumardögum sé frískur sólfarsvindur af suðvestri, eða þá að norðlæg hafgola nái yfirhöndinni síðdegis.

Múlaþing

Múlaþing er nýtt sameinað sveitarfélag fjögurra minni sveitarfélaga á Austurlandi; Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Við sameiningu varð til víðfeðmasta sveitarfélag landsins, um 10.671 ferkílómetrar að flatarmáli sem er rúm 10% af flatarmáli Íslands. Fjölbreytileiki svæðisins er því mikill, allt frá sjó og inn til jökla. Íbúar Múlaþings eru rúmlega fimm þúsund.