Ormurinn
Lykilþáttur í skipulagstillögunni er göngu- og verslunargata sunnan Fagradalsbrautar sem hefur fengið nafnið Ormurinn. Nafnið vísar til þjóðsögunnar um Lagarfljótsorminn. Með fögru umhverfi, góðri aðkomu og miklu framboði af þjónustu og afþreyingu er kominn grundvöllur fyrir öflugt mannlíf.
Til að mæta ólíkum þörfum íbúa og gesta er Orminum skipt niður í þrjú minni dvalarsvæði; leiksvæði, torg og samkomusvæði sem virka eins og upphaf, miðja og endir. Sunnan við torgið er gert ráð fyrir samkomusvæði sem hefur fjölbreyttan möguleika fyrir ýmsa viðburði sem stuðla að félagslegu heilbrigði svo sem tónleikum o.fl.
Fyrir miðju verður torg sem gert verður að aðlaðandi bæjartorgi með bekkjum og götugögnum sem styður blómlega verslun og þjónustu. Torgið nýtist fyrir mismunandi viðburði eins og ýmis hátíðarhöld, götu- og jólamarkað. Austan megin við Orminn er auk þess gert ráð fyrir veitingaþjónustu með möguleika á útisvæði þar sem það liggur vel við sólu. Vestan við samkomusvæðið verður leiksvæði rammað inn með gróðri, gróðurmön og bekkjum.
Samkomusvæðið verður mótað í hring þar sem bekkir, gróður og útisvið verða til staðar til að halda fjölbreyttar samkomur. Almenningsgarðurinn nýtist bæði fyrir leik og útivist
Mikilvægt er að móta rýmið í heild sinni með fjölbreyttum gróðri til að mynda skjólgott og aðlaðandi svæði sem gott er að setjast niður, staldra við og stuðla að samskiptum við annað fólk. Frá göngugötunni verður gengið inn í verslanir en bílastæði verða baka til. Umhverfið við og í kringum göngugötuna verður gert aðlaðandi með gróðri og fallegum setsvæðum.
Vistvænt skipulag fyrir gangandi, hjólandi og njótandi.