Sveitarfélagið Múlaþing​

Lyngási 12, 700 Egilsstaðir | Kt: 660220-1350 |
Sími: 4 700 700 | mulathing@mulathing.is

Skipulag

Markmiðið með nýju skipulagi er að skapa vandaða miðbæjarbyggð og leggja grunn að fögru og vel byggðu umhverfi í góðum tengslum við útivistarsvæði. Sterkur miðbær er mikilvægur hverju sveitarfélagi þar sem hann gegnir fjölbreyttu hlutverki sem vettvangur mannlífs, menningar, viðskipta, þjónustu og stjórnsýslu.

Deiliskipulagið byggir á framtíðarsýn og stefnu sem byggir á tveimur gildum, framsækni og virðingu en stefnan hvílir á fjórum stoðum, þekkinguþjónustuvelferð og umhverfi.

Með nýju deiliskipulagi Egilsstaða er verið að móta framtíðarsýn fyrir uppbyggingu miðbæjarins. Þéttari byggð stuðlar að betri landnýtingu, skapar fjölbreyttara og líflegra bæjarumhverfi. Við það aukast rekstrarhagsmunir verslunar og þjónustu innan svæðisins og skapast aðstæður fyrir mannlíf í miðbænum samhliða því.

Miðbæjarkjarninn er snertiflötur og gegnir stóru félagslegu hlutverki. Þangað sækir fólk verslun og þjónustu, nýtur útiveru, hittir vini og kunningja. Byggðin samanstendur af fjölbreyttu íbúðar- verslunar- og þjónustuhúsnæði. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir fjölgun íbúða í bland við atvinnuhúsnæði til að skapa lifandi götumynd og mannlíf allan daginn í miðbænum. Á neðri hæðum er gert ráð fyrir verslun og þjónustu en íbúðum á efri hæðum.

 

Tölulegar upplýsingar um deiluskipulagið:

  • Samkvæmt deiliskipulagi er um 95.588 fm² svæði að ræða þar af 51.526 fm² af byggingum.
  • Núverandi byggingarmagn er um 28.000 m²
  • Byggingarmagn nýbygginga ofanjarðar er um 23.800 m²
  • Heildarfjöldi íbúða er 161.
  • Heildarfjöldi bílastæða á skipulagssvæðinu er um 1.000 þar af eru 35 í bæjarlandi.

Helstu markmið deiliskipulagsins eru:

  • Að þétta byggðina til að stuðla að betri landnýtingu, skapa fjölbreytt og líflegt bæjarumhverfi með möguleika fyrir íbúðir á efri hæðum við nýja göngugötu, Orminn.
  • Með þéttleika og blöndun byggðar aukast rekstrarhagsmunir fjölbreyttar verslunar og þjónustu innan svæðisins og skapast aðstæður fyrir mannlíf í miðbænum samhliða.
  • Að móta byggðina þannig að hún verði í hlutföllum við mannlegan mælikvarða svo borgarrýmin milli bygginganna verði aðlaðandi og nothæf. Einnig að yfirbragð byggðar verði fjölbreytt og skjólmyndandi til að ramma inn athafnir manna á milli.
  • Að hægt verði að hefja uppbyggingu í raunhæfum áföngum og stuðla að því markmiði að hefja uppbyggingu á göngugötunni til að styrkja mannlíf og aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.